450-3000

Home » Fréttir » Hvetjandi fjárfestir í Örnu ehf

Hvetjandi fjárfestir í Örnu ehf

„Við erum mjög spennt fyrir þessu. Við erum búin að fara vel yfir gögn fyrirtækisins og skoða þetta. Frumkvöðlarnir hafa mikla þekkingu á þessum markaði og framleiðsluferlinu svo okkur líst vel á þennan fjárfestingarkost. Vonandi skilar þetta svo þeirri ávöxtun sem við væntum af fjárfestingum okkar. Við erum full bjartsýni um framtíð þessa fyrirtækis,“ segir Shiran Þórisson, framkvæmdastjóri eignarhaldsfélagsins Hvetjanda, en félagið hefur ákveðið að kaupa 6,94% eignarhlut í Örnu ehf. í Bolungarvík.

Arna ehf., er fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á mjólkurvörum án mjólkursykurs en markaðurinn fyrir þannig mjólkurvörur hefur verið í örum vexti undanfarin ár. Mjólkuróþol er mjög mismunandi eftir heimsálfum en í Vestur Evrópu er talið að 10% íbúa þjáist af óþoli . Á sumum stöðum í Afríku og Asíu getur tíðnin náð allt að 90%. Með vaxandi heilsuvitund fólks, þar sem aukin áhersla er á fæðu sem stuðlar að auknu heilbrigði og vellíðan, er ljóst að framleiðsluvörur Örnu hafa fulla burði til að falla í kramið hjá neytendum en fyrirtækið mun framleiða margvíslegar vörur unnar úr hágæða mjólk eins og skyr, jógúrt, rjóma og osta.

Fyrirtækið er lítið og sveigjanlegt og hefur það að markmiði að bregðast við þörfum syllumarkaða með sem skjótustum hætti. Framleiðslan mun fara í sölu og dreifingu í haust. Frumkvöðlar verkefnisins eru Hálfdán Óskarsson mjólkurtæknifræðingur og Þórarinn Egill Sveinsson mjólkurverkfræðingur. Með fjárfestingunni er Hvetjandi að leggja sitt af mörkum til að nýir og vonandi arðbærir sprotar geti komið vöru sinni í framleiðslu og inn á vaxandi markað. Slíkt hjálpar til við að skapa sterkara og fjölbreyttara atvinnulíf á Vestfjörðum.

Hvetjandi hf. eignarhaldsfélag var stofnað í janúar 2004. Félagið var stofnað í framhaldi af samþykkt þingsályktunar á Alþingi um byggðamál árið 1999 þar sem Byggðastofnun var heimilað að taka þátt í stofnun eignarhaldsfélaga með 40% framlagi á móti 60% framlagi heimamanna í formi hlutafjár. Var fjármagninu ætlað að styrkja atvinnuþróunarmál í kjördæmum landsins.

Félagið er í eigu Byggðastofnunar og sveitarfélaga og fyrirtækja á Vestfjörðum. Stærstu eigendurnir eru Byggðastofnun sem á helming hlutafjár, Ísafjarðarbær sem á 27,% hlutafjár og Sparisjóður Bolungarvíkur sem á 13% hlutafjár félagsins. Hvetjandi á jafnframt í viðræðum við Bolungarvíkurkaupstað um bærinn komi inn í Hvetjanda sem hluthafi og í kjölfarið er áætlað er að fara í frekari kaup á hlutafé í Örnu sem mun styrkja verkefnið enn frekar.

Frétt birtist upphaflega á bb.is